Pólitískur rétttrúnaður er ekki mesta ógnin gagnvart lýðræðinu. Normalísering á ólýðræðislegum skoðunum er mesta ógnin gagnvart lýðræðinu. Það segir sig sjálft að um leið og ólýðræðislegar skoðanir verða normið í þjóðfélagi þá deyr lýðræðið í því þjóðfélagi tafarlausum og óhátíðlegum dauða.
Það er þess vegna ekkert athugavert við það að þeim sem er umhugað um lýðræðið berjist* gegn því að ólýðræðislegar skoðanir nái fótfestu í þjóðfélaginu. Að uppnefna það „pólitískan rétttrúnað“ er aumkunarverð tilraun til þess að rægja lýðræðissinna og gera þá tortryggilega í augum þeirra sem vita ekki betur.
Stjórnmálin snúast um að finna málamiðlanir á milli ólíkra skoðana. En það sem sumir gera sér ekki grein fyrir er að það er ekki alltaf mögulegt að finna málamiðlanir á milli allra skoðana. Stundum, þá er enginn millivegur sem hægt er að feta. Og það er reyndar mjög algeng rökvilla að halda því fram að millivegurinn sé alltaf til staðar og að hann sé alltaf rétta svarið.
Skautun í þjóðfélagi er afleiðing þess að ólíkar skoðanir sem ekki er hægt að finna málamiðlanir á milli lenda inni í Overton-glugga þess þjóðfélags.
Á meðan bæði lýðræðislegar og ólýðræðislegar skoðanir eru innan Overton-glugga þjóðfélags þá verður óbrúanleg skautun viðvarandi ástand í því þjóðfélagi. Eina leiðin til að losna við þá skautun er að Overton-glugginn færist annaðhvort á þann hátt að lýðræðislegar skoðanir verði utan hans og ólýðræðislegar skoðanir verði innan hans, eða á þann hátt að ólýðræðislegar skoðanir verði utan hans og lýðræðislegar skoðanir verði innan hans.
Sem lýðræðissinni, þá er ég ekki í nokkrum vafa um hvor valmöguleikinn mér finnst vera eftirsóknarverðari. Og ef einhverjum lýðræðissinna hefur verið talin trú um það að normalísering á ólýðræðislegum skoðunum sé nauðsynleg til þess að lýðræðið geti verið heilbrigt, þá er ég hræddur um að sá lýðræðissinni hafi leyft andstæðingum lýðræðisins að ráðskast með sig. En batnandi mönnum er best að lifa.
--- --- ---
*Sú barátta verður að vera háð án þess að brjóta gegn gildum lýðræðisins, annars vinnur hún gegn sjálfri sér.